Framsókn í Fjarðabyggð

Hér má finna áherslumál Framsóknar í Fjarðabyggð fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar þann 14. maí næstkomandi. Áherslumálin eru sett fram undir kjörorðinu „Framsókn til framtíðar fyrir samfélagið allt“ og endurspeglar það að framundan eru spennandi tímar í samfélaginu okkar með krefjandi og skemmtilegum verkefnum.

Þessi áherslumál voru unnin eftir að frambjóðendur höfðu fundað með íbúum í byggðakjörnum Fjarðabyggðar í aðdraganda kosninganna, þar sem kallað var eftir áhersluatriðum íbúa. Frambjóðendur unnu síðan úr þeim efnivið ásamt því sem þeir höfðu sjálfir við að bæta og niðurstaða þess er sett hér fram.

Áherslumál Framsóknar í Fjarðabyggð eru af ýmsum toga. Málefni fjölskyldna eru sem fyrr í fyrirrúmi hjá okkur, enda viljum við að Fjarðabyggð sé góður staður til að búa á, þar sem vel er hlúð að fjölskyldufólki. Þar þarf að horfa til ýmissa þátta og ber þar hæst að leggja aukinn kraft í uppbyggingu húsnæðis svo eitthvað sé nefnt.

Þá eru einnig spennandi tímar framundan í atvinnumálum, ekki síst möguleikar sem eru í sjónmáli varðandi grænan orkugarð á Reyðarfirði og starfsemi honum tengdum. Þar á samfélagið okkar möguleika á að renna enn frekari stoðum undir hið öfluga atvinnulíf sem hér er. Við viljum einnig að Fjarðabyggð verði leiðandi sveitarfélag þegar kemur að framleiðslu rafeldsneytis til orkuskipta hér á landi sem og til útflutnings. Við höfum til þess tækifæri sem við þurfum að grípa.

Samfélagið í Fjarðabyggð er fjölbreytt og áherslumál Framsóknar endurspegla það.

Við göngum sátt til kosninga þann 14. maí, leggjum stolt verk okkar síðastliðin fjögur ár í dóm kjósenda og þá framtíðarsýn sem hér er lögð fram.

Jón Björn Hákonarson, oddviti Framsóknar í Fjarðabyggð.

Greinar