Atvinnumál

Fjarðabyggð hefur í gegnum tíðina búið vel að því öfluga atvinnulífi sem hér er og eru fyrirtæki í Fjarðabyggð með þeim stærstu og öflugustu hérlendis á sviði sjávarútvegs og álframleiðslu. Því viljum við halda áfram í uppbyggingu í höfnum sveitarfélagsins í takt við þróun sjávarútvegsins þannig að hann geti eflst og dafnað í takt við umsvip sín í sjávarútvegi og fiskeldi. Þar liggur að miklu leyti fjöregg samfélagsins okkar og með sanni er hægt að segja að Fjarðabyggð sé miðstöð sjávarútvegs á Íslandi. Þeirri stöðu ætlum við að halda og efla áfram.

Framsókn í Fjarðabyggð mun leggja höfuðáherslu á áframhaldandi þróun og uppbyggingu Græns orkugarðs og grænar fjárfestingar í atvinnuuppbyggingu í sveitarfélaginu. Við viljum að Fjarðabyggð verði leiðandi samfélag þegar kemur að framleiðslu á orku til orkuskipta.

Glæsileg uppbygging á Múlanum á Norðfirði hefur sýnt hversu mikil lyftistöng slík aðstaða er fyrir eflingu starfa án staðsetningar á landsbyggðinni. Leita þarf allra leiða til að efla slíka uppbyggingu sem víðast í hverfum Fjarðabyggðar. Þá er mikilvægt að tryggt verði að farið verði í ljósleiðaravæðingu þéttbýlis í Fjarðabyggð sem fyrst. Eigi störf án staðsetningar að vera raunverulegur valkostur þarf að tryggja að lagningu ljósleiðara ljúki sem fyrst í öllum byggðakjörnum.

  • Höfuðáhersla verður á þróun og uppbyggingu Græns orkugarðs og grænar fjárfestingar

  • Hvetja til uppbyggingar klasa og samvinnuhúsa í hverfum sveitarfélagsins

  • Leggja áherslu á nýsköpun og eflingu lítilla og meðalstórra fyrirtækja

  • Gera átak í ljósleiðaravæðingu sveitarfélagsins sem er lykilatriði fyrir störf án staðsetningar

  • Tryggja að Fjarðabyggð haldi stöðu sinni sem miðstöð sjávarútvegs á Íslandi

  • Halda áfram að fjárfesta í uppbyggingu í höfnum Fjarðabyggðar í samráði við þróun sjávarútvegs

  • Ýta undir nýliðun í landbúnaði

  • Efla þjónustu og samstarf milli bænda og sveitarfélagsins, íbúa og fyrirtækja

  • Horfa til þess hvernig hægt er að auka framleiðslu og ræktun og ýta undir nýsköpun

  • Ýta undir að matarmörkuðum verði komið á laggirnar og íbúum gefist kostur á að versla beint við matvælaframleiðendur