Stefnuskrá 2022

Hér að neðan eru okkar helstu stefnumál miðað við umræður á opnum fundum við íbúa

Framsókn í Fjarðabyggð mun leggja höfuðáherslu á greiða fyrir byggingu húsnæðis í sveitarfélaginu eftir ýmsum leiðum. Mikil þörf er fyrir nýtt íbúðarhúsnæði í Fjarðabyggð til að hingað geti flutt nýir íbúar.

Þá er ekki síður þörf fyrir húsnæði fyrir íbúa sem vilja minnka við sig og selja stærri eignir, ásamt því að efla leigumarkað í hverfum Fjarðabyggðar.

Smelltu á myndina til að sjá okkar helstu áherslumál varðandi húsnæði


Framsókn í Fjarðabyggð mun áfram leggja höfuðáherslu á málefni fjölskyldunnar í Fjarðabyggð líkt og á þessu kjörtímabili sem er að ljúka. Mikið hefur áunnist í málaflokkum tengdum fjölskyldum á síðustu árum. Framsókn í Fjarðabyggð vill halda áfram á þeirri vegferð og var stofnun fjölskyldusviðs Fjarðabyggðar árið 2018 mikilvægt framfaraskref.

Framsókn í Fjarðabyggð leggur höfuðáherslu á áframhaldandi sókn í málefnum sem snúa að íþrótta- og tómstundamálum í sveitarfélaginu, bættri aðstöðu og aukinni samvinnu íþróttafélaga.

Smelltu á myndina til að sjá okkar helstu áherslumál varðandi fjölskyldur, íþróttir og tómstundir


Framsókn í Fjarðabyggð mun leggja höfuðáherslu á áframhaldandi eflingu samgangna í sveitarfélaginu eins og verið hefur síðustu ár. Þar er Suðurfjarðavegur í forgangi áfram og að framkvæmdum við hann verði flýtt. Þá þarf einnig að halda áfram að efla almenningsamgöngur í Fjarðabyggð og byggja á þeirri reynslu sem fengist hefur að undanförnu.

Smelltu á myndina til að sjá okkar helstu áherslumál varðandi fjölskyldur, íþróttir og tómstundir


Framsókn í Fjarðabyggð leggur höfuðáherslu á áframhaldandi eflingu menntunar í sveitarfélaginu. Okkar öflugu skólar eru hornsteinar samfélagsins og við viljum standa áfram vörð um þeirra góða starf.

Smelltu á myndina til að sjá okkar helstu áherslumál varðandi menntun í Fjarðabyggð


Framsókn í Fjarðabyggð leggur höfuðáherslu á áframhaldandi eflingu menningar í sveitarfélaginu. Stofnun Menningarstofu Fjarðabyggðar var mikilvægur þáttur í að efla og styrkja menningu á svæðinu. Við þurfum að standa vörð um alla menningu því hún er dýrmæt.

Smelltu á myndina til að sjá okkar helstu áherslumál varðandi menningu í Fjarðabyggð


Á komandi kjörtímabili þarf að huga vel að markaðs- og kynningarstarfi Fjarðabyggðar. Hefja þarf átak í að kynna Fjarðabyggð sem álitlegan búsetukost og vinna það í mikilli og góðri samvinnu við fyrirtæki og stofnanir á svæðinu. Þá þarf að auka enn frekar upplýsingaflæði til íbúa um verkefni sveitarfélagins og það sem verið er að gera nú þegar.

Smelltu á myndina til að sjá okkar helstu áherslur varðandi markaðs og kynningarmál


Fjarðabyggð hefur í gegnum tíðina búið vel að því öfluga atvinnulífi sem hér er og eru fyrirtæki í Fjarðabyggð með þeim stærstu og öflugustu hérlendis á sviði sjávarútvegs og álframleiðslu. Því viljum við halda áfram í uppbyggingu í höfnum sveitarfélagsins í takt við þróun sjávarútvegsins þannig að hann geti eflst og dafnað í takt við umsvip sín í sjávarútvegi og fiskeldi. Þar liggur að miklu leyti fjöregg samfélagsins okkar og með sanni er hægt að segja að Fjarðabyggð sé miðstöð sjávarútvegs á Íslandi. Þeirri stöðu ætlum við að halda og efla áfram.

Framsókn í Fjarðabyggð mun leggja höfuðáherslu á áframhaldandi þróun og uppbyggingu Græns orkugarðs og grænar fjárfestingar í atvinnuuppbyggingu í sveitarfélaginu. Við viljum að Fjarðabyggð verði leiðandi samfélag þegar kemur að framleiðslu á orku til orkuskipta.

Glæsileg uppbygging á Múlanum á Norðfirði hefur sýnt hversu mikil lyftistöng slík aðstaða er fyrir eflingu starfa án staðsetningar á landsbyggðinni. Leita þarf allra leiða til að efla slíka uppbyggingu sem víðast í hverfum Fjarðabyggðar. Þá er mikilvægt að tryggt verði að farið verði í ljósleiðaravæðingu þéttbýlis í Fjarðabyggð sem fyrst. Eigi störf án staðsetningar að vera raunverulegur valkostur þarf að tryggja að lagningu ljósleiðara ljúki sem fyrst í öllum byggðakjörnum.

Smelltu á myndina til að sjá okkar helstu áherslur varðandi atvinnu


Framsókn í Fjarðabyggð leggur áherslu á eflingu landbúnaðar í sveitarfélaginu til framtíðar litið. Landbúnaður hefur átt undir högg að sækja, en þar geta á næstu árum skapast fjölmörg sóknarfæri sem geta aukið nýliðun í greininni.

Smelltu á myndina til að sjá okkar helstu áherslur varðandi landbúnað

Félagsþjónusta Fjarðabyggð efldist til muna með tilkomu fjölskyldusviðs á árinu 2018. Með því hefur náðst mun meiri festa í rekstri og bætt þjónusta við þá sem þangað leita. Mikilvægt er að halda áfram á þessari braut og halda vel utan um málaflokkinn.

Málefni eldri borgara eru okkur mikilvæg. Það á að vera gott að eldast í Fjarðabyggð og mikilvægt er að bjóða þessum hópi íbúa upp á trausta og góða þjónustu.

Smelltu á myndina til að sjá okkar helstu áherslur varðandi félagsþjónustu og eldri borgara


Framsókn í Fjarðabyggð leggur höfuðáherslu á úrgangsmál á komandi kjörtímabili. Mikið hefur unnist í þeim málaflokki á síðustu árum en þar eru ýmis verkefni framundan til að gera enn betur.


Smelltu á myndina til að sjá okkar helstu áherslur varðandi umhverfismálin


Ábyrg og traust fjármálastjórn í rekstri Fjarðabyggðar er forsenda þess að veita íbúum góða þjónustu. Fjarðabyggð er sem betur fer lifandi og vaxandi samfélag og því ljóst að fjárfestingarþörf er alltaf til staðar í hinum ýmsu þáttum sem snúa að þjónustu. Þeim verkefnum þarf að forgangsraða og vinna eftir því. Öflug og skilvirk stjórnsýsla er lykilatriði í fjölkjarna samfélagi eins og Fjarðabyggð. Á síðustu árum hefur mikið verk verið unnið í að gera stjórnsýslu rafræna og færa þjónustuna nær íbúum með rafrænum leiðum. Halda þarf áfram á þeirri leið og tryggja að Fjarðabyggð fylgi þeirri hröðu þróun sem er í þeim málum.

Smelltu á myndina til að sjá okkar helstu áherslur varðandi umhverfismálin